Skólahjúkrun

Heilsuvernd grunnskólabarna er hluti af heilsugæslunni og framhald af ung –og smábarnavernd. Hjúkrunarfræðingar sjá um heilsuvernd skólabarna og er markmið hennar að efla heilbrigði nemenda og stuðla að vellíðan þeirra. Embætti landlæknis hefur gefið út leiðbeiningar um heilsuvernd grunnskólabarna sem skólahjúkrunarfræðingar á landinu öllu fara eftir og er notast við sameiginlegt skráningarkerfi.

Skólahjúkrunarfræðingur í Sunnulækjarskóla er Þorbjörg Anna Steinarsdóttir og er hún með skrifstofu í vesturenda skólans á 2. hæð.

Viðvera í skólanum er mánudaga og föstudaga kl. 08:00 – 12:00, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga kl.08:00 – 14:00.
Netfang: thorbjorg.anna@sunnulaekjarskoli.is

Reglubundnar skoðanir, heilbrigðisfræðsla og bólusetningar

Skimanir og skoðanir eru framkvæmdar í 1., 4., 7. og 9. bekk þar sem gerðar eru hæðar- og þyngdarmælingar, sjónpróf og tekin eru einstaklingsviðtöl um lífstíl og líðan þar sem markmiðið er að styrkja vitund nemenda um eigin lífstíl og líðan. Þessi viðtöl gera skólahjúkrunarfræðingi einnig kleift að grípa til úrræða ef nemendur tjá vanlíðan eða áhyggjur. Þá halda hjúkrunarfræðingar utan um bólusetningar allra nemenda í skólanum og bólusetja nemendur, í samráði við foreldra/forráðamenn, ef bólusetningar eru ófullnægjandi auk skipulagðra bólusetninga. Í 7.bekk er bólusett gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt (1 sprauta). Stúlkur eru einnig bólusettar gegn HPV veirunni (2 sprautur). Í 9.bekk er bólusett gegn kíghósta, mænusótt, barnaveiki og stífkrampa (1 sprauta).

Skólahjúkrunarfræðingur sinnir einnig skipulagðri heilbrigðisfræðslu og heilsueflingu þar sem tekin eru fyrir mismunandi fræðsluefni eftir árgöngum meðal annars: hvíld, hreyfing, hollur matur, hreinlæti, hamingja, hugrekki, kynheilbrigði og slysavarnir.

Svefn og nesti

Reglulegur og nægjanlegur svefn er mikilvægur fyrir heilsu og þroska barna. Börn þurfa að sofa í 10-12 klst á nóttu. Skóladagur nemenda er langur, mikilvægt er að borða reglulega og hafa með sér hollt og gott nesti. Mikilvægt er að foreldrar/forráðamenn séu með í vali á nesti. Ekki er leyfilegt að koma með hnetur í Sunnulækjarskóla vegna bráðaofnæmis hjá einstaklingum í skólanum.

Slys og veikindi

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemendur að fara á heilsugæslustöð eða slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.

Lyfjagjafir

Samkvæmt fyrirmælum Embætti landlæknis eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur meðal annars fram að skólabörn skulu ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Barn á bara að fá lyf á skólatíma sem forráðamenn hafa komið með í skólann og óskað eftir að barn fái. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er alltaf foreldranna. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum t.d. insúlíngjafir sem barnið sér alfarið sjálft um. Foreldrar/ forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólaheilsugæslu sem skipuleggur lyfjagjafir á skólatíma.

Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu/lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólahjúkrunarfræðingur viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingasjúkdóma.

Ráðgjöf

Skólahjúkrunarfræðingur sinnir ráðgjöf til nemenda, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans. Hann vinnur í náinni samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda með velferð nemenda að leiðarljósi. Skólahjúkrunarfræðingur situr lausnateymis-og nemendaverndaráðsfundi í skólanum og einnig samráðsfundi með félagsþjónustunni, skólaþjónustunni, læknum og sálfræðingum á HSU. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál.

Á vef Landlæknis má finna foreldrabréf um skólaheilsugæslu og verksvið hennar: https://www.landlaeknir.is/gaedi-og-eftirlit/heilbrigdisstarfsfolk/leidbeiningar-fyrir-heilsugaeslu/heilsuvernd-grunnskolabarna/nanar/item16563/Heilbrigdisfraedsla-

Á vefnum www.heilsuvera.is er að finna ýmsa fræðslu og upplýsingar sem foreldrar/forráðamenn eru eindregið hvattir til þess að kynna sér.