Skólaþríþraut

Sunnulækjarskóli átti fimm nemendur í skólaþríþraut FRÍ sem fór fram föstudaginn 4. júní í frjálsíþróttahöllinni í Laugardalnum.


 

Forkeppnin fór fram í hverjum grunnskóla fyrir sig þar sem mældur var árangur í hástökki, kúluvarpi og 120 m hlaupi hjá 6. og 7. bekk. Keppt var í riðlum eftir landshlutum og komust fjórir af hvoru kyni í hvorum árgangi fyrir sig áfram í úrslitakeppnina. Tvær stúlkur úr 7. bekk komust áfram, þær Andrea Lind Guðmundsdóttir og Halldóra Ósk Eiríksdóttir og þrír nemendur í 6. bekk, þau Guðrún Óskarsdóttir, Jörundur Snær Hjartarson og Hlynur Steinn Bogason.


Í úrslitakeppninni stóðu þau sig öll frábærlega og var ekki að sjá að margir voru að stíga sín fyrstu spor á frjálsum íþróttum. Keppt var í langstökki með atrennu, kúluvarpi og 60m spretthlaupi. Jörundur Snær kastaði kúlunni lengst allra stráka í 6. bekk (11,51m) og reyndist það einnig vera annar besti árangur stráka í allri keppninni (980 stig). Andrea Lind bætti sig vel í kúluvarpi (8,10m) og varð í 2. sæti í sínum flokki, auk þess að lenda í 2. sæti í heildarstigum í sínum flokki. Halldóra Ósk varð í 3.-4. sæti í 60 m spretthlaupi (8,89 sek) í sínum flokki og Hlynur Steinn og Guðrún voru að bæta sig í flestum greinum, áttu jafna og góða þraut. Skemmst er frá því að segja að Suðurland vann heildarstigakeppnina og fengu allir keppendur Suðurlands gjafabréf á Hamborgarafabrikkuna að launum.