Nemendur Sunnulækjarskóla stóðu sig frábærlega í Skólaþríþraut FRÍ

 

Úrslitakeppni Skólaþríþrautar fór fram í frjálsíþróttahöllinni í Laugardal, laugardaginn 5. maí. Sjö nemendur Sunnulækjarskóla höfðu unnið sér inn þátttökurétt eftir undankeppni í íþróttatímum. Sex nemendur mættu svo í höllina, Perla Sævarsdóttir, Jón Þór Sveinsson, Pétur Már Sigurðsson, Skúli Darri Skúlason og Valgarður Uni Arnarsson öll í 6. bekk, Alma Rún Franzdóttir í 7. bekk en því miður komst Gabríel Werner Guðmundsson 7. bekk ekki á úrslitakeppnina.

Krakkarnir stóðu sig vægast sagt frábærlega og náðu þriðja sætinu í heildarstigakeppni skólanna. Perla hljóp á frábærum tíma í 60 m spretthlaupi og náði 2.-3. bestum tíma í 6. bekk stelpur og Alma Rún bætti sig bæði í hástökki og kúluvarpi. Pétur Már og Valgarður Uni voru í 1. og 2. sæti í hástökki stráka í 6. bekk og Pétur Már varð einnig þriðji í kúluvarpi og í heildarstigakeppninni í þríþrautakeppninni sjálfri. Strákarnir í 6. bekk, Jón Þór, Pétur Már, Skúli Darri og Valgarður Uni  gerðu sér svo lítið fyrir og sigruðu heildarstigakeppnina í 6. bekk stráka.

 Sunnlensk börn af HSK svæðinu stóðu sig mjög vel á mótinu og unnu rúmlega helming einstaklingsverðlaunanna. Nánari úrslit af mótinu má finna á slóðinni: http://mot.fri.is/cgi-bin/ibmot/timesedillib1850.htm.