Sunnulækjarskóli Selfossi

Ólympíuhlaup ÍSÍ - viðurkenning

Ólympíuhlaup ÍSÍ – viðurkenning

Ólympíuhlaup ÍSÍ (Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands) var formlega sett þann 8. september sl. Tilgangur hlaupsins er að hvetja nemendur í grunnskólum landsins til þess að hreyfa sig reglulega og stuðla þannig að betri heilsu og vellíðan. Nemendur gátu valið um þrjár vegalengdir; 2,5 km., 5 km. og 10 km.

Allir skólar sem tóku þátt fengu viðurkenningu þar sem fram kom heildarfjöldi kílómetra sem nemendur lögðu að baki og hversu margir skólar voru með. Þátttakan var mjög góð, alls skráðu 76 skólar sig til leiks.

Eins og undanfarin ár voru 3 skólar sem lokið höfðu hlaupinu og skilað inn upplýsingum til ÍSÍ dregnir út og var Sunnulækjarskóli einn af þeim. Hinir skólarnir voru Grunnskóli Snæfellsbæjar og Foldaskóli í Reykjavík.

Viðurkenningin var 100.000 kr. gjafakort hjá  íþróttavöruversluninni Altis í Hafnarfirði.

Fyrir andvirðið verða keypt áhöld til íþróttakennslu.

Haustfrí

Haustfrí

Við minnum á að fimmtudagur og föstudagur í þessari viku, 15. og 16. október, eru haustfrísdagar í Sunnulækjarskóla. Því mæta nemendur ekki í skólann þessa daga.

Skólastarf hefst aftur samkvæmt stundaskrám mánudaginn 19. október.

Aðkoma í sýnatöku

Aðkoma í sýnatöku

Aðkoma að sýnatökunni verður frá Tryggvagötu, til austurs Norðurhóla og inn á bílastæðið við Sunnulækjarskóla. Þegar sýnatöku er lokið er farið út á Norðurhóla með hægri beygju til austurs og inn á Erlurima. Einstefna verður um Norðurhóla til austurs.  

Með þessu næst hringakstur inn og út af bílastæðinu og ætti ekki að verða mikil umferðarteppa. Lögreglan mun sjá um umferðarstjórn á vettvangi.

Vegna Covid sýnatöku á morgun fimmtudag 8. október

Vegna Covid sýnatöku á morgun fimmtudag 8. október

Sýnataka vegna Covid-19 mun fara fram í íþróttahúsi Sunnulækjarskóla fimmtudaginn 8. október.

Vegna mikils fjölda er tilteknum árgöngum nemenda boðið að koma á tilteknum tímum. Gengið verður inn um aðalinngang íþróttahússins og þaðan rakleitt inn í íþróttasal. Þar þarf að sýna strikamerki. Að lokinni sýnatöku verður gengið út um aðrar dyr á íþróttasal og um neyðarútgang á vesturgafli skólans.

Nemendum er boðið að mæta sem hér segir:
1. bekkur mæti kl. 8:30 – 9:30
4. bekkur mæti kl. 9:30 – 10:30
Nemendur Seturs mæti kl. 10:30 – 12:00

Frá kl. 12:00 – 13:00 er hádegishlé
6. og 7. bekkur mæti kl. 13:00 – 14:00
8. og 9. bekkur mæti kl. 14:00 – 15:00
10. bekkur og starfsmenn skólans mæta kl. 15:00 – 16:00

Við mælumst til þess að aðeins eitt foreldri komi með barninu Ef foreldrar eiga fleiri en eitt barn sem þarf að koma í sýnatöku má koma með bæði börnin á sama tíma.

Allir þurfa að bera grímur.

Ef þú ert með einkenni Covid-19 þá mátt þú ekki koma í þessa sýnatöku heldur þarft að hringja á HSu, fá samtal við hjúkrunarfræðing sem bókar þig í einkennasýnatöku.

Allir þurfa að vera komnir með strikamerki svo hægt sé að taka sýni.

Covid-19

Ágætu foreldrar

Eins og fram hefur komið greindust Covid-19 smit í okkar hópi í lok síðustu viku.  Um helginu unnu stjórnendur í samráði við smitrakningarteymi við að skipuleggja og hrinda í framkvæmd þeim viðbrögðum sem við eiga í þessu tilfelli.

Niðurstaðan var að 7 árgangar skólans ásamt nemendum í Sérdeild Suðurlands – Setrinu og nokkur fjöldi starfsmanna þurfti að fara í sóttkví. Allir hlutaðeigandi fengu póst á laugardag þar að lútandi.

Á sjöunda degi sóttkvíar er boðið upp á sýnatöku og munu þeir sem eru í sóttkví fá nánari upplýsingar um framkvæmd hennar í tölvupósti.  Allir sem fá neikvæða niðurstöðu þeirrar sýnatöku geta því lokið sóttkví að því loknu.

Skólahald hjá 2., 3. og 5. bekk skólans er með eðlilegum hætti þessa viku

Svo umfangsmikil aðgerð sem þetta er krefst þess að við tökum öll saman höndum og hjálpum hvert öðru að komast í gegnum verkefnið með samstöðu og lausnarmiðaða hugsun að vopni.

Bestu þakkir fyrir stuðninginn.

Kveðja,
Birgir

Sjá allar fréttir