Sérdeild Suðurlands fékk menntaverðlaun Suðurlands 2015

 

Fimmtudaginn 14. janúar 2016 var haldinn hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þar voru m.a. veitt menntaverðlaun Suðurlands sem SASS stendur fyrir. Gunnar Þorgeirsson, formaður SASS, flutti ávarp og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Kristínu Björk Jóhannsdóttur, deildarstjóra, verðlaunin. Kristín ávarpaði því næst samkomuna og þakkarorð hennar fengu góðar viðtökur.

Sérdeild Suðurlands (Setrið) hefur á undanförnum árum verið að efla starf sitt verulega en það  snýr m.a. að því að veita nemendum með sérþarfir, fjölbreytt nám í hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af þörfum þeirra og stöðu í samvinnu við heimaskóla.  Áhersla er lögð á að nemendur geti þroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu og verið félagslega virkir þátttakendur í skólasamfélaginu.  Almenn ánægja er með starf deildarinnar og telja margir að það sé með því besta sem þekkist hér á landi og þó víðar væri leitað.

Sérdeild Suðurlands hefur fengið margar heimsóknir fagfólks á undanförnum árum sem hefur kynnt sér starf hennar. Deildin veitir jafnframt starfsfólki skóla og foreldrum á Suðurlandi og víðar á landinu kennslufræðilega ráðgjöf  vegna nemenda með sérþarfir sem stunda nám í sínum heimaskólum. Sérdeild Suðurlands hefur á undanförnum árum verið með framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi og veitt fjölmörgum nemendum með sérþarfir kennslu og mikilvæga þjónustu sem er til fyrirmyndar.