Sunnulækjarskóli Selfossi

Gönguferð um Reykjadal

Gönguferð um Reykjadal

Síðastliðinn fimmtudag fór hópur af krökkum í Hreystivali í gönguferð. Farið var með rútu og var ferðinni heitið inn í Reykjadal. Við gengum um fallegt landslag upp að laugunum og útsýnið yfir Flóann var stórkostlegt. Þar fóru margir ofan í heita lækinn. Ferðin gekk mjög vel og við vorum heppin með veður, þótt örlítið hafi blásið á toppnum.

Haustfrí

Haustfrí

Við minnum á að fimmtudagur og föstudagur í þessari viku, 17. og 18. október, eru haustfrísdagar í Sunnulækjarskóla.  Því mæta nemendur ekki í skólann þessa daga.

Skólastarf hefst aftur samkvæmt stundaskrám mánudaginn 21. október.

Heimsókn á Listasafn Árnesinga

Heimsókn á Listasafn Árnesinga

Í dag þriðjudag fór 3. bekkur í heimsókn á Listasafn Árnesinga í Hveragerði og kíkti á sýninguna Einu sinni var… Þjóðsagnamyndir Ásgríms Jónssonar. Sýningin byggir á Þjóðsögum Jóns Árnasonar og myndlýsingum Ágríms Jónssonar. Heimsóknin er hluti af samstarfi grunnskóla í Árnessýslu og verða verkefni tengd sýningunni unnin í vetur í myndmenntasmiðju. Nemendur munu m.a. fá að setja upp þau verk sem unnin verða í myndmennt á sýningu síðar á skólaárinu.

Nemendur í 3. bekk höfðu gaman af heimsókninni og voru skólanum til mikils sóma.

Ólympíuhlaupið í Sunnulækjarskóla

Ólympíuhlaupið í Sunnulækjarskóla

Þriðjudaginn 3. september hlupu nemendur Sunnulækjarskóla Ólympíuhlaupið (áður Norræna Skólahlaupið). Hringurinn sem var farin er 2,5 km og gátu nemendur valið um 1-4 hringi. Nemendur réðu sinni vegalengd og hraða, fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir tækju þátt. Það var góð stemming í hlaupinu, frábært veður og mikill metnaður hjá nemendum. Það voru 90 nemendur í skólanum sem að hlupu 10 km sem eru fleiri en áður. Alls hlupu nemendur í Sunnulækjarskóla 2795 km, virkilega vel af sér vikið.

Skákkennsla grunnskólabarna

Skákkennsla grunnskólabarna

Fischersetrið á Selfossi mun í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg, Skákskóla Íslands og Skákfélag Selfoss og nágrennis standa fyrir skákkennslu fyrir grunnskólabörn í Fischersetrinu á laugardögum frá kl. 11.00–12.30. Yfirumsjón með kennslunni hefur Helgi Ólafsson, stórmeistari og skólastjóri Skákskóla Íslands. Alls verða þetta 10 laugardagar og fyrsti tími verður laugardaginn 14. september n.k. Þeir sem hafa áhuga á skákkennslunni eru beðnir um að mæta u.þ.b. 30 mínútum áður en fyrsta æfing hefst til að ganga frá skráningu og greiðslu nemendagjalds sem er kr. 4.500 fyrir þessi 10 skipti. Varðandi frekari upplýsingar þá vinsamlegast hringið í síma 894-1275 eða sendið tölvupóst á netfangið fischersetur@gmail.com Fischersetrið á Selfossi.

Sjá allar fréttir