Sunnulækjarskóli Selfossi

Þorrasöngstund

Þorrasöngstund

Í morgun hófu nemendur Sunnulækjarskóla daginn með söngstund í tilefni Þorra.  Söngurinn var kraftmikill og sungið af innlifun.  Hópurinn, sem var að stórum hluta klæddur íslenskum lopapeysum, tók sig vel út í tröllatröppunum og var í góðu samræmi við Þorrann sjálfan.  Í lokin var þó sungið eitt ástarljóð úr íslensku Eurovision söngvakeppni síðastliðins árs og létu börnin ekki heldur sitt eftir liggja við það tækifæri.

Sérdeild Suðurlands fékk menntaverðlaun Suðurlands 2015

Sérdeild Suðurlands fékk menntaverðlaun Suðurlands 2015

 

Fimmtudaginn 14. janúar 2016 var haldinn hátíðarfundur Vísinda- og rannsóknarsjóðs Suðurlands í sal Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þar voru m.a. veitt menntaverðlaun Suðurlands sem SASS stendur fyrir. Gunnar Þorgeirsson, formaður SASS, flutti ávarp og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti Kristínu Björk Jóhannsdóttur, deildarstjóra, verðlaunin. Kristín ávarpaði því næst samkomuna og þakkarorð hennar fengu góðar viðtökur.

Sérdeild Suðurlands (Setrið) hefur á undanförnum árum verið að efla starf sitt verulega en það  snýr m.a. að því að veita nemendum með sérþarfir, fjölbreytt nám í hvetjandi námsumhverfi sem tekur mið af þörfum þeirra og stöðu í samvinnu við heimaskóla.  Áhersla er lögð á að nemendur geti þroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu og verið félagslega virkir þátttakendur í skólasamfélaginu.  Almenn ánægja er með starf deildarinnar og telja margir að það sé með því besta sem þekkist hér á landi og þó víðar væri leitað.

Sérdeild Suðurlands hefur fengið margar heimsóknir fagfólks á undanförnum árum sem hefur kynnt sér starf hennar. Deildin veitir jafnframt starfsfólki skóla og foreldrum á Suðurlandi og víðar á landinu kennslufræðilega ráðgjöf  vegna nemenda með sérþarfir sem stunda nám í sínum heimaskólum. Sérdeild Suðurlands hefur á undanförnum árum verið með framúrskarandi framlag á sviði menntunar á Suðurlandi og veitt fjölmörgum nemendum með sérþarfir kennslu og mikilvæga þjónustu sem er til fyrirmyndar.

 

Frá skáknámsskeiði  í Fischersetri

Frá skáknámsskeiði í Fischersetri

Fischersetrið á Selfossi mun í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg og Skákskóla Íslands standa fyrir skákkennslu fyrir grunnskólabörn í Fischersetrinu á sunnudögum frá kl. 11.00–12.30. Yfirumsjón með kennslunni hefur Helgi Ólafsson, stórmeistari og skólastjóri Skákskóla Íslands.

Alls verða þetta 10 sunnudagar og fyrsti tími verður sunnudaginn 17. jan. nk.

Þeir sem hafa áhuga á skákkennslunni eru beðnir um að  mæta u.þ.b. 30 mínútum  áður en fyrsta æfing hefst til að ganga frá skráningu og greiðslu nemendagjalds sem er kr. 4.500 fyrir þessi 10 skipti.

Varðandi frekari upplýsingar þá vinsamlegast hringið í síma 894-1275 eða sendið tölvupóst á  netfangið fischersetur@gmail.com
Fischersetrið á Selfossi.

Jólafrí

Jólafrí

Ágætu foreldra og nemendur

Við óskum nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegar jóla og farsæls komandi árs.  Hér fylgir mynd af árlegu kertasundi sem nemendur Sunnulækjarskóla þreyttu í liðinni viku.

Skólastarf hefst að nýju mánudaginn 4. janúar 2016, samkvæmt stundaskrá.

Jólakveðja,
starfsfólk Sunnulækjarskóla

Ritunarsamkeppni í 10. bekk

Ritunarsamkeppni í 10. bekk

Ritunarsamkeppni var nýlega haldin í 10. bekk í íslensku og stóðu nemendur sig með prýði. Elísa Rún Siggeirsdóttir varð hlutskörpust með söguna „Logi í beinni“, í öðru sæti var Arndís María Finnsdóttir með „Hvítan kjól“ og þriðja sætið hlaut Ragna Fríða Sævarsdóttir með söguna „Grænn“.

Sjá allar fréttir