Sunnulækjarskóli Selfossi

Afrakstur góðgerðardaga afhentur

Afrakstur góðgerðardaga afhentur

Nemendur Sunnulækjarskóla á Selfossi afhentu Sjóðnum góða í morgun 635.973 krónur sem söfnuðust á góðgerðardögum í skólanum í síðustu viku.

Á þemadögum í Sunnulæk framleiddu nemendur skólans reiðinnar ósköp af allskyns spennandi jólavarningi sem síðan var seldur gestum og gangandi á jólamarkaði föstudaginn 25. nóvember síðastliðinn. Allur ágóðinn af sölubásunum átti að renna óskiptur til góðgerðarmála í sveitarfélaginu.

Í morgun komu svo sr. Guðbjörg Arnardóttir og Erla G. Sigurjónsdóttir fyrir hönd Sjóðsins góða og tóku við þessari veglegu upphæð. Guðbjörg þakkaði nemendum Sunnulækjarskóla hjartanlega fyrir að vilja hjálpa öðrum sem þurfa hjálp fyrir jólin. „Þið eruð svo sannarlega búin að gera góðverk,“ sagði Guðbjörg við krakkana.

Sjóðurinn góði er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu og hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.

Afhendingin fór fram á söngstund í skólanum í morgun, en í dag er Dagur íslenskrar tónlistar og krakkarnir létu sitt ekki eftir liggja og tóku hraustlega undir í söng.

(Sjá vefur: sunnlenska.is)

Góðgerðardagar í Sunnulækjarskóla

Vantar ykkur jólagjafir?

Nú eru nemendur Sunnulækjarskóla búnir að framleiða reiðinnar ósköp af alls kyns spennandi varningi og munu opna fjölda sölubása í skólanum á morgun, föstudaginn 25. nóvember, kl. 11:00.  Allur ágóði rennur til góðgerðamála í sveitarfélaginu.

Börnin hafa staðið sig frábærlega og sýnt af sér áræðni, hugmyndaauðgi, þrek og þor og síðast en ekki síst mikla hæfni í samvinnu og samskiptum.  Kennarar og aðrir starfmenn eru afar stoltir af nemendunum og nemendurnir af verkum sínum og því mega foreldrar vera stoltir af börnum sínum.  Auk sölubásanna verður kaffihús á staðnum sem nemendur sjá um að reka og hafa undirbúið kaffimeðlæti sem verður til sölu á kaffihúsinu.  

Á morgun munu börnin bíða spennt eftir gestum og því er það ósk okkar að sem allra flestir sjái sér fært að kíkja til okkar milli kl. 11 og 13.  Því miður verða engir posar á staðnum og því mikilvægt að gestir hafi með sér reiðufé og jafnvel skiptimynt því ef að líkum lætur gæti stundum reynst erfitt að gefa til baka af stórum seðlum.

 dsc_0387 dsc_0384 dsc_0380 dsc_0377 dsc_0375 dsc_0374 dsc_0363 dsc_0345 dsc_0339

 

Vettvangsferðir valhópa

Þann 14. nóvember s.l. lögðu þrír af valhópum Sunnulækjarskóla í ferðalag til Reykjavíkur.  Þetta voru valhóparnir Litun og prent, Textíl og Nýsköpun, samtals um 30 nemendur. Lagt var af stað árla morguns og farið með Strætó báðar leiðir.

Hóparnir úr Litun og prent og Textíl heimsóttu bæði Tækniskólann og Listaháskóla Íslands. Markmið þeirra var að kynnast starfi skólanna. Í Tækniskólanum voru tvær brautir kannaðar, annars vegar Fataiðnbraut og hins vegar Hönnunar og nýsköpunarbraut.  Í Listaháskólanum fengum nemendur svo að kynnast fatahönnun. Ferðin var bæði áhugaverð og skemmtileg.

Nemendur úr Nýsköpunarvali fóru í heimsókn í Fablab verksmiðjuna í Reykjavík. Markmið þeirra var að vinna afurðir sem hannaðar höfðu verið í valáfanganum Nýsköpun hér í Sunnulækjarskóla sem  kennarinn hafði í fateskinu á minnislykli.

Í Fablab verksmiðjunni í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti tók umsjónarmaður ásamt gestakennurum frá Finnlandi á móti hópnum. Öll kennslan fór fram á ensku þannig að athygglin þurfti að vera í lagi á meðan útskýringarnar fóru fram.  Nemendurnir voru til fyrirmyndar og var haft orð á því hve duglegir og samviskusamir þeir væru og virkilega gaman að hafa svona hóp.  Allir unnu verkefni í vinilskera ásamt því að nokkrir gerðu verkefni í laserskera bæði í plexigler og MDF plötu. Um kl. 14:30 þegar heimsóknin var komin að lokum voru nokkrir nemendur ekki tilbúnir að fara og vildu gjarnan vera lengur.

Hóparnir sameinuðust svo aftur í Mjóddinni áður en þeir fóru með strætó í Grillhúsið þar sem allir gæddu sér á girnilegum mat.   Að lokum var ákveðið að fara í ævintýraferð og labba upp í Mjódd og varð úr því mikil skemmtun.

Þessi ferð heppnaðist í alla staði mjög vel og voru það ánægðir og þreyttir ferðalangar sem komu heim með afurðir sínar.

taekniskolinn-1 taekniskolinn-2 taekniskolinn 001 002 003 004

Heimsókn á skrifstofu stéttarfélaganna

Fyrr í þessum mánuði fóru nemendur í 10. bekk Sunnulækjarskóla í þjónustuskrifstofu stéttarfélaganna á Suðurlandi. Þau kynntu sér þjónustu stéttarfélaganna og fengu gagnlegar upplýsingar um réttindi og skyldur á vinnumarkaði.

Eftir að kynningu lauk var boðið upp á pizzu og gos. Nemendum fannst margt merkilegt í heimsókninni og stéttarfélögunum þótti bæði fengur og mikil ánægja af heimsókn unga fólksins þar sem að þau eru að fara inn á vinnumarkaðinn og því nauðsynlegt að þau þekki réttindi sín og skyldur.

heimsokn-2 heimsokn-4 heimsokn-1

Fræðslufundur í Fjallasal

Mánudagskvöldið 14. nóvember bauð Samborg, samtök foreldrafélaga í Árborg, foreldrum á kakófund í Fjallasal Sunnulækjarskóla. Kakófundir og Súpufundir eru það form fræðslufunda sem best hefur gefist í sveitarfélaginu en þá er fenginn fyrirlesari til að fjalla um tiltekið efni en í fundarhléi er boðið upp á veitingar og að þeim loknum er spjallað og spurt.

Á fræðslufundinum flutti Sólveig Norðfjörð sálfræðingur, áhugavert erindi um samskipti við börn og unglinga. Sólveig varpaði ljósi á fjölmarga fleti sem tengjast mismunandi aldri og einstaklingsmun og benti á mögulegar leiðir til uppbyggilegar samskipta um leið og hún varaði við algengum mistökum sem við öll gerum í erli dagsins.

Fundurinn var afar vel sóttur og þökkum við foreldrum góðar undirtektir við fræðslufundum sem haldnir eru á þessum vettvangi.

20161114_202037 20161114_202127 20161114_201942

Glærur af fundinum má nálgast hér!

Sjá allar fréttir