Sunnulækjarskóli Selfossi

Ólympíuhlaupið í Sunnulækjarskóla

Ólympíuhlaupið í Sunnulækjarskóla

Þriðjudaginn 3. september hlupu nemendur Sunnulækjarskóla Ólympíuhlaupið (áður Norræna Skólahlaupið). Hringurinn sem var farin er 2,5 km og gátu nemendur valið um 1-4 hringi. Nemendur réðu sinni vegalengd og hraða, fyrst og fremst lögð áhersla á holla hreyfingu og að allir tækju þátt. Það var góð stemming í hlaupinu, frábært veður og mikill metnaður hjá nemendum. Það voru 90 nemendur í skólanum sem að hlupu 10 km sem eru fleiri en áður. Alls hlupu nemendur í Sunnulækjarskóla 2795 km, virkilega vel af sér vikið.

Skákkennsla grunnskólabarna

Skákkennsla grunnskólabarna

Fischersetrið á Selfossi mun í samstarfi við Sveitarfélagið Árborg, Skákskóla Íslands og Skákfélag Selfoss og nágrennis standa fyrir skákkennslu fyrir grunnskólabörn í Fischersetrinu á laugardögum frá kl. 11.00–12.30. Yfirumsjón með kennslunni hefur Helgi Ólafsson, stórmeistari og skólastjóri Skákskóla Íslands. Alls verða þetta 10 laugardagar og fyrsti tími verður laugardaginn 14. september n.k. Þeir sem hafa áhuga á skákkennslunni eru beðnir um að mæta u.þ.b. 30 mínútum áður en fyrsta æfing hefst til að ganga frá skráningu og greiðslu nemendagjalds sem er kr. 4.500 fyrir þessi 10 skipti. Varðandi frekari upplýsingar þá vinsamlegast hringið í síma 894-1275 eða sendið tölvupóst á netfangið fischersetur@gmail.com Fischersetrið á Selfossi.

Göngum í skólann

Göngum í skólann

Sunnulækjarskóli ætlar að vera með í Göngum í skólann, verkefni á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Embætti landlæknis, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Ríkislögreglustjóra, Samgöngustofu, Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og Heimilis og skóla. Göngum í skólann verður sett miðvikudaginn 4. september og lýkur formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 2. október.

Megin markmið verkefnisins eru að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni. Fræða þau um ávinning reglulegrar hreyfingar, að draga úr umferðarþunga, mengun og hraðakstri nálægt skólum. Auk þess er reynt að stuðla að vitundarvakningu fyrir virkum ferðamáta og umhverfismálum og það hversu “gönguvænt” umhverfið er. Á síðasta ári tóku milljónir barna frá 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann með einum eða öðrum hætti. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna á vef þess www.gongumiskolann.is

Skólabókasafnið

Skólabókasafnið

Á þessu skólaári geta nemendur Sunnulækjarskóla fundið mikið úrval af nýjum bókum á dönsku á skólasafninu. Bækurnar sem standa til boða eru allt frá skáldsögum, t.d. nýjustu bækurnar um Kidda Klaufa sem ekki er búið að þýða yfir á íslensku ennþá, til handboltabóka og allskyns spennandi fræðibóka. 

Með því að bjóða upp á fjölbreytt úrval bóka á dönsku vill bókasafnið stuðla að bættri dönskukunnáttu og einnig að bjóða nemendur skólans aðgang á lesefni sem ekki fæst á íslensku. Verkefnið var styrkt af Fondet for Dansk-Islands Samarbejde og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Skólasetning Sunnulækjarskóla

Skólasetning verður fimmtudaginn 22. ágúst 2019.

Kl. 09:00 Nemendur í 1. – 4. bekk, f. 2010 – 2013.
Kl. 10:00 Nemendur í 5. – 7. bekk, f. 2007 – 2009.
Kl. 11:00 Nemendur í 8. – 10. bekk, f. 2004 – 2006.

Gert er ráð fyrir stuttri samkomu í Fjallasal en síðan munu nemendur og foreldrar hitta umsjónarkennara.

Foreldrar eru hvattir til að mæta með börnum sínum þennan fyrsta skóladag.

Sjá allar fréttir