Sunnulækjarskóli Selfossi

Hönnunarsamkeppni í Sunnulækjarskóla

Þriðjudaginn 22. maí fór fram hönnunarsamkeppni í Sunnulækjarskóla.

Nemendur í 8. bekk hafa undarfarnar vikur verið að vinna verkefni í náttúrufræði þar sem þau þurftu að hanna bíl sem gekk fyrir rafmagni. Nemendur endurnýttu gömul raftæki, rifu þau í sundur og tóku úr þeim litla mótora sem notaðir voru til að knýja bílana. Einnig var reynt að nota sem mest af endurvinnanlegu efni í bílana, eins og flöskur, tappa, pappakassa og dósir. Markmiðið var að láta bílinn keyra og svo var keppt í þrem flokkum.

Brautarkeppni þar sem nemendur létu bílinn keyra eftir braut og söfnuðu stigum eftir því hversu vel gekk á brautinni.

Frumlegasti bíllinn þar sem skoðað var útlit og frumleiki bíls og svo besta hönnun bíls en þar var verið að huga að smáatriðum bílanna, hvort þeir væru t.d með straumrofa og þess háttar og í heild hversu vel bíllinn var hannaður til að virka.

Keppnin fór fram í Fjallasal þar sem nemendur úr 7. og 10. bekk fylgdust með. Í dómnefnd sátu Steinunn Húbertína, raungreinakennari, Áslaug Jónsdóttir, textílkennari og Lárus Gestsson smíðakennari. Keppnin var mjög spennandi og munaði aðeins 5 stigum á sigurliði og því sem hafnaði í öðru sæti. Verkefnið er hluti af raungreinakennslu skólanns þar sem markmiðið er að efla áhuga á tæknimennt og kenna nemendum grunn hugsun rafmagnsfræðinnar og hvernig einföld tæki geta virkað. 

Bestu þakkir fá Landsbankinn og Pylsuvagninn fyrir að gefa vinninga í keppnina, einnig fá foreldrar og aðrir sem gáfu raftæki í verkefnið bestu þakkir. 

Mynd 1. Rebekka og Guðbjörg með bílinn sinn sem vann best hannaði bíllinn

Mynd 2. Jón, Benjamín, Friðveig og Sigríður með bílinn sinn sem vann frumlegasta bílinn

Mynd 3. Viktor, Ása, Eva, Heiðar og Sindri með bílinn sinn sem sigraði brautarkeppnina með 70 stigum.

Mynd 4-7 bílar úr verkefninu. 

 

Nýsköpunarverkefni í Sunnulækjarskóla

Nýsköpunarverkefni í Sunnulækjarskóla

Undanfarnar vikur hafa nemendur í 9. bekk verið að vinna að nýsköpunarverkefni í Kviku, sem eru kennslustundir þar sem hinar ýmsu námsgreinar eru samþættar.

Til að koma krökkunum af stað fengu þau fyrirlestur frá Eyjólfi Eyjólfssyni frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Þar næst unnu þau saman í hópum með það markmið að finna upp sniðuga hluti sem gætu laðað að ferðamenn á Selfossi, aðallega í formi þjónustu eða vara. Margar frábærar hugmyndir fæddust í þessari vinnu.

Að loku var haldin kynning þar sem nemendur kynntu sína vöru á básum fyrir nemendum á öllum stigum skólans.

Dæmi um nokkar góðar hugmyndir má nefna bakarí sem heitir Taste Iceland sem sérhæfir sig í íslensku bakkelsi, ilmvatsgerð, lampi úr íslensku hrauni, ferðamanna app, heimasíða fyrir ferðamenn, möndlugerð, drykkjarflöskur með þjóðlegu yfirbragði og margt fleira.

 

Örsögukeppni í 10. bekk

Örsögukeppni í 10. bekk

Tíundubekkingar tóku allir þátt í örsögusamkeppni í íslensku í síðustu lotu. Veitt voru verðlaun fyrir fyrstu þrjú sætin, sigurvegararnir voru Ásdís Bára Steinarsdóttir, Gabríel Árni Valladares Inguson og Karen Hekla Grönli. Meðfylgjandi er mynd af sigurvegurunum á uppskeruhátíð síðastliðinn miðvikudag, 11. apríl, þar sem kennarar buðu upp á veitingar.

Dægurlög og höfundar þeirra


Nemendur í 10. bekk hafa undanfarið verið að vinna með íslenska dægurlagatexta og höfunda þeirra.  Nemendur kynntu sér nokkra höfunda og lögin þeirra ásamt því að vinna ýmis verkefni.

Í tengslum við verkefnið buðum við einum höfundi, Herði Torfasyni, að koma og heimsækja okkur. Hörður kom til okkar í dag, sagði okkur sögu sína og spilaði nokkur lög.

Nemendur voru mjög áhugasamir og sýndu sögu hans áhuga.

 

Góður árangur í skólahreysti

Góður árangur í skólahreysti

Fimmtudaginn 22. mars keppti Sunnulækjarskóli í Suðurlandsriðli Skólahreysti. Krakkarnir stóðu sig með sóma og höfnuðu í öðru sæti, sem er besti árangur sem Sunnulækjarskóli hefur náð í keppninni til þessa.

Í liðinu í ár voru Bjarki Birgisson sem keppti í upphífingum og dýfum.  Sólrún María Jóhannsdóttir sem keppti í armbeygjum og hreystigreip, Jónas Grétarsson sem keppti í hraðabraut og Evelyn Þóra Jósefsdóttir sem keppti einnig í hraðabraut. Varamenn voru Hrafnhildur Ósk Gunnarsdóttir, Klara Ósk Sigurðardóttir og Bjarki Breiðfjörð Björnsson. Í vetur var Skólahreysti val í skólanum og því eru nemendur búnir að vera að undirbúa sig fyrir keppnina í allan vetur.

Við óskum krökkunum til hamingju með þennan flotta árangur.

Sjá allar fréttir