Sunnulækjarskóli Selfossi

Gjöf frá foreldrafélagi Sunnulækjarskóla

Gjöf frá foreldrafélagi Sunnulækjarskóla

Í morgunsárið, fimmtudaginn 15. nóvember, komu fulltrúar foreldrafélags Sunnulækjarskóla færandi hendi í skólann okkar.

Erindið var að færa öllum nemendum í 1. bekk endurskinsvesti.  Lögreglan var með í för og aðstoðaði við afhendinguna.  Allir voru glaðir með gjöfina og kunnum við foreldrafélagi skólans bestu þakkir fyrir og hvetjum foreldra til að tryggja að vestin verið notuð sem allra mest.

Vestin munu nýtast nemendum strax í dag því að lokinni afhendingu fóru allir nemendur 1. bekkjar í heimsókn á gamla leikskólann sinn.  Það verkefni er liður í að styrkja tengslin milli leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu okkar.

Þetta er í fjórða sinn sem foreldrafélagið færir skólanum slíka gjöf og því ættu nú nær allir nemendur á yngsta stigi skólans að eiga slík vesti í fórum sínum.

Skemmtilegt í náttúrufræði

Það sem af er skólaárs hafa nemendur á unglingastigi brallað ýmislegt skemmtilegt í náttúrufræði.  

8. bekkur er búinn að fara í vettvangsferð þar sem þau skoðuðu býflugnabú hjá býflugnabóndanum Svölu Sigurgeirsdóttur, þau hafa einnig greint plöntur, gróðursett og skoðað skordýr í smásjá. Þau eru svo að fara að rækta bakteríur á næstunni.  

9. bekkur er búinn að kryfja lungu úr svínum, gera mjölvapróf til að kanna magns sykurs í lausn, læra að búa til smásjársýni úr laukfrumum og eru að fara að kryfja hjörtu úr svínum á næstunni og læra að mæla blóðþrýsting 

10. bekkur er búinn að gera hálsmen með sínu eigin erfðaefni eða DNA, reikna út kyn ófæddra barna sinna, skoða sögu jarðar og eru að fara að rækta sína eigin kristalla á næstu dögum og gera fræðsluefni í náttúrufræði fyrir börn.  

Við í Sunnulækjarskóla leggjum ríka áherslu á verklega kennslu í náttúrufræði. Þannig komast nemendur nær viðfangsefninu og skilningurinn á námsefninu verður miklu meiri, auk þess sem það er afar skemmtilegt að gera verklegar æfingar.

Jól í skókassa

Jól í skókassa

S.l. mánudag voru tenglarnir í 7. bekk með bekkjarkvöld þar sem nemendur og foreldrar hittust hér í skólanum og útbjuggu gjafir fyrir verkefnið „Jól í skókassa“ sem KFUM og KFUK heldur utan um.

Á miðvikudeginum fórum við kennarar, stuðningsfulltrúar og nemendur saman í göngutúr út í kirkju og afhentum gjafirnar. Þar tók Jóhanna Ýr æskulýðsfulltrúi vel á móti okkur, fór með krakkana í skoðunarferð um kirkjuna og upp í kirkjuturn. Jóhanna endaði svo á að gefa börnunum djús og piparkökur í safnaðarheimilinu.

Nemendur voru mjög ánægðir og stoltir af sjálfum sér eftir að hafa gefið u.þ.b. 40 gjafir í söfnunina.

Alþjóðlegi bangsadagurinn

Alþjóðlegi bangsadagurinn er 27. október ár hvert. Hann er haldinn hátíðlegur í fjölmörgum leik- og grunnskólum og á bókasöfnunum. Saga dagsins er á þá leið að Theodore (Teddy) Roosevelt fyrrum forseti Bandaríkjanna var eitt sinn á veiðum ásamt veiðifélögum sem allir höfðu náð að skjóta dýr en hann ekki. Félagar hans og hundar eltu uppi björn heillengi og þegar þeir náðu honum bundu þeir hann fastan við tré og sóttu svo Teddy og sögðu honum að skjóta björninn. Hann vildi það hins vegar ekki en vildi að björninn yrði drepinn til að lina þjáningar hans. Þessi atburður varð uppspretta skopmyndar sem birtist í Washington Post árið 1902 og varð kveikjan að framleiðslu tuskubangsa sem kallaður var Teddy´s bear (Bangsinn hans Tedda). Bangsinn varð strax mjög vinsæll og framhaldið vitum við öll. Nú er Alþjóðlegi bangsadagurinn haldinn hátíðlegur ár hvert á fæðingardegi Theodore Roosevelt.

Nemendur og starfsfólk í 5. og 6. bekk Sunnulækjarskóla ákváðu að láta bangsadaginn ekki framhjá sér fara og komu í skólann í náttfötum, með uppáhaldsbangsann sinn og gerðu sér glaðan dag föstudaginn 26. október.

Einar Kárason í heimsókn

Einar Kárason í heimsókn

Nemendur í 10. bekk fengu Einar Kárason rithöfund í heimsókn í dag.  

Einar skrifaði bókina Djöflaeyjan sem nemendur eru að lesa þessa dagana.  Hann sagði frá tilurð sögunnar, af hverju áhugi hans kviknaði á þessu efni og hvernig bókin varð til. Einnig ræddi hann einstaka persónur í sögunni og hvernig margar þeirra eiga sér lifandi fyrirmynd í raunveruleikanum.

Hann sagði okkur aðeins frá sjálfum sér, uppvaxtarárum sínum í Reykjavík en einnig aðeins frá lífi sínu sem rithöfundur.  Nemendur voru mjög áhugasamir og heimsókn Einars mun sannarlega hjálpa þeim við lestur bókarinnar.

Sjá allar fréttir