Sunnulækjarskóli Selfossi

Ævar vísindamaður í heimsókn

Ævar vísindamaður í heimsókn

Ævar Þór kom í Sunnulækjarskóla 12. nóvember sl. og las fyrir nemendur í 4. – 7. bekk upp úr nýrri bók sinni sem var gefin út hjá Forlaginu og heitir ÞINN EIGIN TÖLVULEIKUR. Þetta er sjötta bókin í ,,Þín eigin“-bókaröðinni.


Þinn eigin tölvuleikur er æsispennandi ævintýrabók, en lesandinn ræður ferðinni sjálfur með því að fletta fram og til baka. Í bókinni eru yfir 120 mismunandi endar – sumir góðir, aðrir slæmir – allt eftir því hvað lesandinn ákveður að gera. Þetta er bók sem virkar eins og tölvuleikur. 

.

Endurskinsvesti afhent í 1. bekk Sunnulækjarskóla

Endurskinsvesti afhent í 1. bekk Sunnulækjarskóla

Foreldrafélag Sunnulækjarskóla afhenti fyrir nokkru, börnum í 1. bekk endurskinsvesti með nöfnum þeirra á. Lögreglumenn frá Lögreglunni á Suðurlandi  mættu í skólann þegar nemendur fengu vestin afhend og fóru yfir hversu mikilvægt það er að sjást vel í umferðinni.

Jól í skókassa

Jól í skókassa

Síðustu ár hafa verið góðgerðardagar í byrjun desember í Sunnulækjarskóla. Í þetta sinn verða þeir síðar á skólaárinu og því langaði kennurunum að gera eitthvað annað góðverk með bekknum fyrir jólin.

Fyrir nokkru kynntu umsjónarkennarar fyrir 7. bekk verkefnið Jól í skókassa og var ákveðið að bekkirnir þrír myndu taka þátt.

Nemendur tóku vel í þetta og voru dugleg að koma með hluti að heiman. Náðist að setja saman efni í 42 skókassa og gengu nemendur 7. bekkja saman út í kirkju og afhentu Jóhönnu Ýr æskulýðsfulltrúa kirkjunnar, pakkana með bros á vör.

.

8. nóvember - Baráttudagur gegn einelti

8. nóvember – Baráttudagur gegn einelti

Í tilefni af Baráttudegi gegn einelti var haldin vinasöngstund í Fjallasal skólans þar sem sungin voru nokkur falleg lög sem tengjast vináttu og kærleik. Við það tækifæri samþykktu nemendur eineltisyfirlýsingu Sunnulækjarskóla með handauppréttingu.  Þar hafa þeir sett sér markmið um að útrýma einelti með öllu.

Meðal laga sem sungin voru í morgun voru lögin Allir þurfa að eiga vin, Á íslensku má alltaf finna svar og Líttu sérhvert sólarlag.

Fyrir 11 árum hófst vinabekkjaverkefni í Sunnulækjarskóla. Verkefninu er þannig háttað að allir nemendur skólans mynda vinatengsl milli nemenda í eldri og yngri bekkjum. Markmiðið er að nemendur á ólíkum aldri kynnist og efli samkennd og virðingu meðal nemenda. Kennarar skipuleggja nokkrar heimsóknir á milli vina inn á hvort heimasvæði yfir skólaárið. Vinir fara einnig saman í söngstundir og á Litlu jólunum dansa vinir saman í kringum jólatréð. Eldri nemendur sækja þá yngri og fylgja þeim í Fjallasal þar sem farið er yfir hversu mikilvægt það er að eiga vini og að allir séu góðir við aðra.

.

Boðskort

Boðskort

Verið velkomin í Listasafn Árnesinga fimmtudaginn 31. október kl. 17:00

Nemendur úr 3. bekk við Sunnulækjarskóla Selfossi sýna sviðsmynda- og sprettibækur sem unnin eru út frá sýningunni Einu sinni var… þar sem sjá má listaverk Ásgríms Jónssonar sem byggja á þjóðsögum og ævintýrum Jóns Árnasonar.

Á opnuninni verður dregið úr spurningaleiknum sem nemendur tóku þátt í þegar þau heimsóttu safnið og fær einn heppinn nemandi verðlaunapakka. Heitt kakó og piparkökur í boði safnsins.

Sýningin stendur til sunnudagsins 3. nóvember og er opin frá kl. 12-18.

Sjá allar fréttir